Hvað er háræðaslit og rósroði?
Háræðaslit eru í raun ekki slit heldur útvíkkaðar háræðar í húðinni. Þær birtast gjarnan um og upp úr miðjum aldri, sérstaklega í andliti og á fótleggjum. Orsakir geta þó verið ýmsar, t.d. aldur, erfðaþættir, offita, hormónabreytingar tengdar meðgöngu, kynþroska eða tíðahvörfum, notkun pillunar, saga um blóðtappa eða þrýstingur á kviðarhol. Einnig eru háræðaslit algengari í ákveðnum starfsgreinum sem krefjast þess að staðið sé stóran hluta úr degi.
Rósroði (e. rosacea) er húðsjúkdómur sem hrjáir fullorðna einstaklinga og kemur yfirleitt ekki fram fyrr en eftir þrítugt. Fyrstu einkenni eru roði á höku, kinnum, nefi eða enni sem til að byrja með kemur og fer. Ef ekkert er að gert getur roðinn orðið varanlegri, háræðar sýnilegri og bólur og fílapenslar farið að koma fram. Nef getur orðið rautt og bólgið, sérstaklega hjá karlmönnum, og augu vökvakennd og blóðhlaupin. Þættir sem geta valdið því að rósroði versni eru m.a. ákveðnar húðvörur, hársprey, sólarljós, hiti, stress, áfengi og sterkur matur.