Almennar upplýsingar til að hafa í huga fyrir og eftir Öra- og Húðslitameðferðir
Fjöldi meðferða: Mælt er með a.m.k. 4-6 meðferðum, eftir stærð svæðis og dýpt örs/húðslits. Að lágmarki 2-4 vikur þurfa að líða á milli meðferða, eftir staðsetningu örs/húðslits. Æskilegt er að leyfa 3-4 vikum að líða á milli meðferða sé um ör á andliti að ræða, en sé ör/húðslit staðsett á líkama má framkvæma meðferð á 2-3 vikna fresti.
Eftir meðferð: Eftir að meðferð er framkvæmd getur borið á roða, hita og sviðatilfinningu í allt að 24 klst. eftir meðferð. Eðlilegt er að í sumum tilfellum flagni húðin í kjölfar meðferðar. Algengt er að húð sé búin að jafna sig 1-5 dögum eftir meðferð, eftir dýpt og stærð örs/húðslits. Í sumum tilvikum geta blöðrur, sár og hrúður myndast eftir meðferð og eru það eðlileg viðbrögð húðarinnar við meðferðinni. Afar mikilvægt er að leyfa húð að gróa náttúrulega til að ná hámarksárangri. Mikilvægt er að gæta fyllsta hreinlætis á meðan húð jafnar sig svo ekki sé hætta á sýkingu.
Mælt er með að bera græðandi krem á svæðið tvisvar á dag í a.m.k. viku eftir meðferð.
Forðast skal sól eins og hægt er í a.m.k. viku eftir meðferð og nota sterka sólarvörn (að lágmarki SPF 30). Einnig skal sleppa líkamsrækt samdægurs og sundi í 1-7 daga.